þriðjudagur, 27. janúar 2009

Kennarinn í umhverfisskipulagi: 


"Mér ber að kynna þetta fyrir ykkur, segja ykkur frá góðum umhverfisvænum gildum svo og sjálfbærni. Hins vegar haga ég mér ekkert eftir því, heima hjá mér eru öll ljós kveikt allan sólarhringinn, ég keyri um á stórum jeppa... enda færi illa fyrir mér á kennarastofunni ef ég gerði það ekki."


Göngutúr í góðu veðri :o)













miðvikudagur, 21. janúar 2009

Kína rúsína ;-)

Rúsínan í pylsuendanum...

dag var, líkt og daginn sem við komum, grámyglulegt veður. Á hótelinu borðuðum við morgunmat og fórum svo út í rútu. Við komum við í skólanum þar sem við sögðum bless við krakkana sem við bjuggum hjá. Eftir það brunuðum við út á flugvöll. Fríhöfnin var stór og mjög sérkennileg. Ég og Hrafndís löbbuðum saman um hana þangað til við settumst upp í vél. Ég keypti nokkur klostelín armbönd og penna. Ég og Hrafndís lentum við hliðin á kínverskum strák sem var að læra verkfræði í Cambridge. Hann spurði mig spjörunum úr og sérstaklega um fjármálakreppuna. Í London gerðum við frekar fátt. Allir voru að örmagnast úr þreytu. Ég borðaði hamborgara með Lalla og Ninnu. Það vað mjög skemmtilegt. Þau eru bæði svo hress og kát. Ég lét mig sökkva niður í stól ásamt öðrum. Sé ég ekki allt í einu Gest Gíslason frænda minn koma labbandi Hann var á leið heim frá Úganda. Ég man ekkert eftir fluginu heim þar sem ég sofnaði áður en við komum í loftið og vaknaði eftir að við lentum. Á bílastæðinu við FS.u. beið kunnuglegt andlit. Pabbi stóð þarna í snjónum tilbúinn að taka á móti mér. Mikið var ég fegin að sjá hann. Ég talaði stöðugt alla ferðina. Það hélt bæði mér og honum vakandi. Svo beið skólinn daginn eftir. Ferðin heppnaðist einstaklega vel og var mikil upplifun.

Köttur út í mýri setti upp á sig stýri úti er ævintýri...

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Kína sýna klína

Þverhníft niður hinumegin!

Hrafndís ;)

Hópurinn á múrnum



Í dag var glaða sólskin. Við fórum frá skólanum um átta leitið. Þá lá leiðin til jaðverksmiðju. Þar fengum við að sjá hvernig þeir vinna það og búa til hina ýmsu hlutu úr því. Þetta var mjög dýrt allt saman. Eftir þetta fórum við á Kínamúrinn. Það sem ég var búin að hlakka mest til. Og vá!!! Það var stórkostlegt. Útsýnið var ólýsanlegt og tilfinningin að standa á múrnum var ómótstæðileg. Þetta var lengi búið að vera draumur að standa þarna en mig óraði aldrei fyrir því að það myndi einhvern tíman gerast. Eftir að hafa hlaupið upp alla óreglulegu tröppurnar og niður aftur, alveg lafmóð og másandi, lá leiðin í klostelín verksmiðju. Það er gert úr kopar sem er beygður í vasa og utan á er úr koparvír límt munstur. Á milli vírana er svo málning. Þetta er svo brennt og pússað. Konan sem sýndi okkur ferlið sagði að mistök væru ekki leyfð. Við fórum svo á perlumarkaðinn. Þar keypti ég silki og nokkra fleiri hluti. Sölufólkið þarna var gríðarlega ágengt og maður þurfti að vera duglegur að prútta. Bara gaman. Eftir að hafa misst okkur á perlumarkaðnum voru allir uppgefnir. En það var enginn tími til þess. Við fórum upp á hótelið þar sem við skiptum um föt. Við fórum svo út að borða með skólastjóranum og nokkrum kennurum. Við fengum “Peking duck” Mjög flott framreitt og mjög gott. Skólastjórinn gaf okkur skjöld með myndum af byggingum skólans á og hópmynd sem tekin var af okkur daginn sem við komum. Á henni voru allir mjög hressir... Svo fórum við í smá verslunar leiðangur. Eftir það fórum við upp á hótel að pakka. Af óþekktum ástæðum gekk það mjög hægt. Ég var með Hrafndísi í herbergi. Arna og Sandra kíktu svo í heimsókn og við töluðum saman langt fram á nótt. Það var mjög gaman hjá okkur. Ég stakk mér í sturtu og fór dauðþreytt í rúmið.

Aðeins eitt blogg eftir....

laugardagur, 17. janúar 2009

Kína tína

Flottasti bíllinn í þorpinu


Eins og alltaf var í dag sólskin og vindur. Ég fór í skólann með Mayi. Þaðan fórum við í lítið þorp sem er með sjálfbæra þróun. Þau safna saman öllum lífrænum úrgangi og framleiða metangas til orkuframleiðslu. Íbúarnir eru um 800 og tekjum þorpsins er bróðurlega skipt á milli allra. Árlega er haldin dumblings hátíð. Hún er daginn fyrir áramótin hjá þeim. Þá koma allir þorpsbúar saman og borða dumblings. Þetta hefur dregið marga ferðamenn til sín. Í þorpinu eru margir garðar fyrir börn að leika sér í. Í hádeginu fórum við á lítinn veitingastað. Þar fengum við meðal annars kjúkling þar sem hausinn fylgdi með. Þessu var ekki öllu snyrtilega raðað á disk heldur var fuglinn murkaður í sundur þannig hausinn stakkst upp úr hrúgunni. Eftir hádegi fórum við í barnaskóla. Þar voru algjörir dúllu krakkar sem tóku á móti okkur og voru leiðsögumennirnir okkar. Við fórum inn í myndmenntatíma hjá þeim og máluðum á kínverskan ávöxt. Ég prófaði að ganga á stultum sem eru bundnar við fæturna á manni. Ég var orðin nokkuð góð í þessu en svo datt ég.... við fórum líka í snúsnú með þeim sem var ótrúlega skemmtilegt. Mér leið eins og ég væri komin í sjöunda bekk aftur. Við fengum svo að heyra krakka spila á mjög töff kínverskt hljóðfæri. Ég fékk að prófa og mig langar ekkert smá mikið í svona. Þegar við komum aftur út í skóla fór ég í litlu tónlistarbúðina sem er á móti skólanum og keypti móngólaflautu sem ég var búin að lofa Pamelu flautukennara að kaupa. Ég fór svo út að borða með fjölskyldunni. Við fengum “Peking duck” Ekkert smá gott. Við fórum svo heim. Á morgun er síðasti dagurinn.


Nú fer þetta að vera búið...

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Kína krína

Forboðna borgin

Hópurinn við "The birds nest"

....og allir Kínverjarnir sem tóku mynd af öllu hvíta fólkinu




Í dag var, eins og undanfarna daga sól en vindur. Í morgunmat fékk ég rúsínubrauð með skinku og eggi. Ég fór með leigubíl í skólann. Það kostaði 10 yuan eða um það bil 200 kall. Í skólanum beið okkar rúta. Þar voru tveir ensku kennarar ásamt A.J. Leið okkar lá að Torgi hins himneska friðar. En á því er meðal annars að finna gamla borgarhliðið, grafhýsi Maós og Forboðnu borgina. Þetta torg rúmar um milljón manns! Á torginu er risastór flaggstöng þar sem kínverski fáninn blaktir við hún. Á hverjum morgni er ákveðin athöfn þar sem fáninn er dreginn upp. Forboðna borgin er í hjarta Beijing og er líka oft kölluð fjólublá borgin. Ástæðan er sú að á nætur himninum eru þrjár stjörnur sem eru heilagar í augum Kínverja og sú sem er í miðjunni er fjólublá. Torgið var troðfullt af fólki og það var eins gott að týnast ekki. Þá kom pandan hans A.J. og talnakerfið að góðu gagni. Við fengum tíma til að labba um, skoða og taka myndir. Ég og Hrafndís vorum í okkar mesta sakleysi að labba um þegar allt í einu stoppuðu okkur nokkrir karlar sem vildu láta taka mynd af sér með okkur. Okkur fannst þetta mjög fyndið. Á Forboðnu borginni hangir 6 m há andlitsmynd af Maó sem er heil fjögur tonn. Ekkert smá flykki. Loks var komið að því að fara inn í Forboðnu borgina. Þvílík sjón. Það er hvergi plöntur að sjá því einn af keisurunum var svo hræddur um að einhver ætlaði að koma og drepa hann, þannig hann lét leggja mörg lög af hellum svo það gæti örugglega enginn grafið sig inn í borgina. Í Forboðnu borginni eru mörg hús: þar sem keisarinn bjó, þar sem haldnar voru veislur, þar sem mikilvægar ákvarðanir voru teknar og mörg, mörg fleiri. Við náðum bara að skoða brota brot af öllum þessum húsum. Þetta er stórmerkur staður þar sem mjög margt merkilegt hefur gerst. Á húsþökunum eru litlar styttur sem eiga að vernda húsin. Því fleiri sem stytturnar eru því merkilegra og mikilvægara er húsið. Í hádeginu borðuðum við á stað þar sem klósettvaskarnir líta út eins og rassar. A.J. datt í hug að fara með okkur í tesmökkun. Það var mjög skemmtilegt. Þar smökkuðum við hin ýmsu te úr mjög litlum tebollum. Okkur var sagt að þetta sé frægasta og besta tehúsið í Beijing. Ég keypti smá te þarna. Eftir þetta fórum við að Ólympíuleikvanginum. “The birds nest” það var ótrúlega skemmtilegt. Mér fannst þetta engin smá upplifun að standa inni á leikvanginum þar sem afreksmenn í sínum greinum hafa keppt. Eftir að ég hitti Mayi lá leið okkar að sölubás mömmu hennar. Hún bjó til armband handa mér úr jaðistein. Hann var mótaður eins og einn drekasonurinn. Í kvöldmat fengum við dumblings. Það er rosa gott. Nokkrir frændur og nágrannar komu í heimsókn. Þeir töluðu enga ensku en sögðust bara vilja horfa á mig í allt kvöld því að ég væri svo falleg. Löggurnar sögðust líka vona að ég yrði örugg hér í Kína. Mayi gaf mér svo kínverskt nafn. You Ha na. Maður segir það víst bara eins og Jóhanna en engu að síður mjög skemmtilegt.
Er að verða uppiskroppa með rímorð
og enn er þetta ekki búið

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Kína skína

Sumarhöllin

Fjölskyldan
Í dag var mikið rok og þess vegna var svolítið kalt. Ég fór með Vivian í skólann. Þar kvaddi ég hana og hitti íslensku krakkana. A planinu fyrir utan skólann var rúta sem átti að flytja okkur á milli staða. Þegar við vorum öll komin inn í rútuna og við vorum búin að athuga með númerakallinu góða hvort allir væru komnir kynnti leiðsögumaðurinn sig fyrir okkur. Ég get ómögulega munað hvað hann hét á kínversku en hann sagði að við mættum kalla hann A.J. Hann var mjög fróður um kínverska sögu. Af því að við vorum á leið í sumarhöllina þá talaði hann mikið um keisarana sem í henni bjuggu. Það var mjög merkilegt að heyra um það. Hann sagði okkur að Sumarhöllin hefur verið eyðilögð að minnstakosti tvisvar. Fyrst í stríði við Frakka árið 1860 og svo seinna árið 1900. Kona eins keisarans var mikil og ákveðin kerling. Hún er jafnan kölluð “The dragon lady.” Þegar maðurinn hennar dó tók hún völdin því sonur þeirra var aðeins 6 ára gamall. Keisarinn hafði skipað nefnd sem átti að gegna keisarahlutverkinu þangað til sonur hans væri orðinn nógu gamall en hún lét bara taka þá fasta. Sonur hennar dó þegar hann var 19 ára og varð því aldrei keisari. Hún átti svo að velja sér annan strák til að vera næsti keisari og þá passaði hún sig á því að hafa hann mjög ungann svo að hún gæti haft völdin sem lengst. Þegar allt var í volæði og enginn hafði hvorki í sig né á þá var hún alltaf að gera endurbætur á Sumarhöllinni. Þegar strákurinn sem hún valdi til að vera næsti keisari var orðinn nógu gamall til að taka við þá lét hún loka hann inni í einu af húsunum í Sumarhöllinni. Fyrir utan virtar byggingar í Kína tíðkaðist að hafa styttu af dreka og fönix fyrir framan innganginn. Oft eru tveir af hverju og þá eru drekarnir nær innganginum því þeir tákna karlmennsku en fönixinn fjær því hann táknar kvennlega fegurð. En fyrir utan Sumarhöllina er þetta öfugt. Fönixinn nær og drekinn fjær. Einfaldlega vegna þess að "the dragon lady" krafðist þess. Allstaðar í Sumarhöllinni eru mjög háir þröskuldir, um 30 cm háir. Þetta er draugavörn. Í Kína trúa menn því að draugar geti ekki hoppað, þannig því hærri sem þröskuldurinn er því betra. A.J var með eina af Ólympíufígúrunum á priki til þess að við týndum honum ekki í mannfjöldanum. Sumarhöllin er stórkostleg. Þetta er um 300 ha svæði en það er jafn stórt og allt land Vesturbæjarins á Hæli. Í Sumarhöllinni eru um 9000 herbergi og í henni er lengsti gangur í heimi sem er 728 m langur! Hann er allur mjög fallega skreyttur. Teikningarnar eru allar mjög nákvæmar og fíngerðar. Myndefnið var sótt af einum keisaranum sem ferðaðist um Kína með fjölda listamanna með sér. Í hvert skipti sem hann sá e-ð sem honum þótti fallegt þá lét hann þá rissa það niður. Við höllina er risa stórt vatn. Þar er að finna ógrynni af ostrum með perlum. Þetta vatn er manngert og sömuleiðis hæðin sem er hjá því. Einn keisarinn lét byggja hús sem er á þremur hæðum. Það er mjög óvenjulegt þar sem flest þeirra eru aðeins á tveim. Í vatninu er feikistórt steinskip það er alltaf fast á sama stað og getur ekki siglt. Náttúran þarna er líka mjög falleg. Fullt af trjám og gróðri. Við Sumarhöllina eru líka tveir steinar. Annar er lukkusteinn en hinn er ólukkusteinn. Enginn vill koma nálægt ólukkusteininum en allir vilja snerta og taka mynd af lukkusteininum. Eftir Sumarhöllina borðuðum við hádegismat. Eftir borðhaldið fórum við að skoða Qing Hua háskólann í Beijing. Þetta er einn af tveim virtustu háskólunum í Beijing. Þar var strákur í byggingaverkfræði sem var leiðsögumaðurinn okkar. Hann leysti það mjög vel af hendi. Hann sagði okkur frá sögu skólans. Hann er stofnaður árið 1911 og er upphaflega í rómantískum stíl. Byggingarnar eru frá mismunandi tímum og sumum húsum fylgja sögur, t.d. draugasögur. En strákurinn gat sagt okkur í hvaða byggingastíl öll húsin á svæðinu voru. Garðurinn þarna í kring er ekkert smá fallegur. Við trítluðum svo öll aftur upp í rútu. A.J. sagði okkur frá því að í rauninni eru fjórar höfðuborgir í Kína. Beijing, Bei- þýðir Norður og –jing þýðir höfuðborg, Ninjing, höfuðborg suðursins, Xian í vestri og Shanghi í austri. Úti í skóla beið svo Mayi mín. Hún er mjög fín stelpa og okkur kemur mjög vel saman. Hún á yngri systur og býr í pínulítilli íbúð ásamt yngri systur sinni, ömmu sinni og foreldrum. Hverfið einkennist af ruslahrúgum, flökkuhundum og hrörlegum blokkum. Stemmningin í íbúðinni var mjög notaleg. Það hékk ekki ein einasta mynd eða málverk uppi á neinum vegg. Nema fyrir ofan rúmmið hjá mér var risastórt veggspjald af Maó! Pabbinn i fjölskyldunni vinnur sem leigubílstjóri og mamman selur og býr til skartgripi. Þessi fjölskylda er því töluvert öðruvísi en sú fyrri. Mamman eldaði dýrindis mat. Eftir matinn fórum við aðeins niður í bæ sem var mjög skemmtilegt. Verslanirnar hér eru
talsvert öðruvísi en því sem ég hef séð áður. Þar voru núðlur í stórum bunkum og grjón í stórum kerum. Eftir að við komum gerði ég fátt annað en að skríða upp í bælið.





þetta er ekki nærri því búið ;-)

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Kína líma

Frá vinstri er það Mayi, Vivian(Kínverjarnir mínir) og kínverjinn hennar Hrafndísar

Lambakjöt
"Hot pot"
Í dag var fínasta veður. Svolítið rok og sólskin. Í dag var íþróttahátíð skólans haldin. Þar var keppt í há- og langstökki en þó aðallega í hlaupi. Fyrst var löng opnunar skrúðganga. Þar voru fulltrúar bekkjanna sem sýndu listir sýnar. Skrúðgangan var mjög löng þar sem það eru meira en 60 bekkir. Á meðan á skrúðgöngunni stóð var stanslaust talað í hljóðnema og auðvitað skildum við ekki orð nema þegar var verið að kynna okkur og þeir sögðu “Bingdao”. Ég settist fyrst hjá Vivian og hennar vinkonum. Það var margt fólk og svolítið kalt. Krakkarnir sátu á dagblöðum til að verða ekki skítugir af áhorfendastúkunni. Vivian gerði allt fyrir mig. Ein vinkona hennar gaf mér eitthvað gult í dollu sem reyndist svo vera ananas hlaup. Mjög sérstakt. Svo byrjaði keppnin. Kínverjar eru afbragðs góðir hlauparar. Ég sá voðalega illa hvernig þeim gekk í langstökkinu en kunnátta þeirra í hástökki var takmörkuð. Hæðirnar voru lágar og þau söxuðu öll. En kannski er það bara sú tækni sem tíðkast hér. Í öllu kraðakinu týndi ég Vivian en fann Hrafndísi, Reyni, Söndru, Hjördísi og Örnu Láru. Þar sátum við með Kínverjanum hennar Hrafndísar. Kínverjinn hennar Hrafndísar sagði okkur að skrifa kveðju á blað á ensku sem myndi vera lesinn upp í kallkerfinu. Við gerðum það og Ninna var mjög ánægð með okkur. Eins og áður var manni heilsað og ég skrifaði nafnið mitt örugglega hundrað sinnum. Þau reyndu svo öll að kenna mér að segja nafnið sitt. En þau fóru oftast bara að hlægja að mér. Í hádeginu fengum við góðan mat eins og vanalega. Eftir hádegi fórum við með rútu inn til Peking til að hitta íslenska sendiherrann. Hann heitir Gunnar Snorri. Við hittum líka aðstoðar mann hans sem heitir Axel. Þeir gáfu okkur kínverskt/íslenskt fánabarmmerki. Það var mjög gaman að heyra þá tala um hvernig það væri fyrir Íslending að búa í Kína. Þeir kenndu okkur svo líka að prútta. Það er nú meiri leikþátturinn. Þeir sýndu okkur svo húsakynni sendiráðsins. Í Beijing eru mjög mörg stór og sérkennileg hús. Þau eru í allskonar litum og með skemmtilegar tengibyggingar á milli húsa. Þegar við komum til baka hitti ég Vivian. Hún labbaði með mig um stræti Daxing. Það var mjög merkilegt. Fullt af fólki og bílum og engar umferðareglur. Ógrynni af hjólum og oft fleiri en einn á hverju hjóli. Vivian og mamma hennar fóru með mig að borða “Hot pot” það er einfaldlega pottur á miðju borðinu með sjóðandi vatni. Ofan í hann setti maður svo bæði kjöt og grænmeti. Í einni skálinni var eitthvað rautt og hlaupkennt. Þetta reyndist vera andarblóð. Það var tekið upp með skeið og set út í sjóðandi vatnið. Það var sama sem ekkert bragð af því. En gaman að prófa. Með þessu fékk maður gums í skál. Þetta voru sesamfræ ásamt kryddi. Þetta var rosalega gott á bragðið. Ofan í þetta dýfði maður öllu sem kom upp úr pottinum. Mamman var búin að borða, þannig það var bara ég og Vivian sem borðuðum. Mamman gerði því lítið annað en að moka mat á diskinn hjá mér. Ég hafði varla undan. Pabbinn var að borða með vinum sínum annars staða í húsinu. Þær fóru með mig þangað að heilsa upp á þá. Veitingastaðirnir hér eru oft einn salur með fullt af borðum og svo eru mörg minni herbergi þar sem fólk getur fengið að vera í friði. Við fórum af veitingastaðnum og heim þar sem ég pakkaði í töskuna mína. Á morgun fer ég nefnilega til hinnar stelpunnar.

Og það kemur meira...

Góður vinur minn

sagði mér að lífið væri ekki erfitt á meðan markmiðin og vonin er til staðar. 

mánudagur, 12. janúar 2009

Kína lína







Ég get ekki lýst því hvað ég var fegin að leggjast upp í rúm í gærkvöldi. Tilfinningin var æðisleg. Ég var mjög fegin að sjá að það var heiðskýrt. Í gær var svo mikil mengunarmolla að það fannst bæði í hálsi og auguum. Í dag var hins vega vindur, þannig veðrið var þægilegt. Vivian vakti mig um hálf sjö. Í morgunmat var spælt egg og grjón. Það er að segja hálfgerður hádegismatur. Mamma hennar keyrði okkur svo í skólann. Ég fór í fyrsta tíma með henni og það var mjög athyglisvert. Ég var ekki viss í hvaða tíma þau voru en mér fannst magnað að sjá að þau voru um 50 í pínulítilli stofu, án kennara á fullu að læra. Það heyrðist ekki múkk. Ég segi nú ekki að þau hafi ekki aðeins talað saman og hlegið en aginn var samt ótrúlegur. Eftir smá stund kom inn lítil gráhærð fýld kona. Hún sagði eitthvað við krakkana sem fékk þau öll til að horfa á mig. Vivian kynnti mig svo og sagði mér svo að standa upp og segja aðeins frá sjálfri mér. Þótt að helmingurinn af þeim skildi örugglega ekkert hvað ég var að segja leyndi áhuginn sér ekki. Það er víst búið að kenna öllum skólanum að segja halló. Þannig þegar við göngum um gangana eru krakkarnir að mana hvert annað að segja það við okkur. Ég brosi alltaf framan í þau og segi halló á móti og þá fær maður stærsta bros í heimi á móti sér, en svo fara þau oft hjá sér. Manni lýður bara eins og stjörnu hérna. Eftir að hafa setið í smá stund uppi í kennslustofunni byrjaði þvílík tónlist. Allir krakkarnir söfnuðust saman í reglulegum hópum á grasvellinum til að gera morgunleikfimi. Á auga bragði voru þau búin að dreifa sér jafnt um allt svæðið. Svo gerður 3300 nemendur morgunleikfimi við tónlist og öll í takt. Mjög magnað. Mr. Lee eða Charlie fór svo með okkur í enskutíma. Þar sátum við á milli nemenda og áttum að taka fullan þátt í tímanum. Kennsluaðferðin hér byggist aðallega á því að kennarinn segir eitthvað og nemendurnir endurtaka það. Í tímanum voru fullt af forvitnum krökkum sem gátu ekki beðið eftir að spyrja okkur spurninga. Stundum voru þau í vandræðum og þá hjálpuðust þau að. Eftir að hafa kvatt káta nemendur í enskutíma fórum við í söngtíma. Þar sátu krakkarnir á kössum í tröppugangi. Konan sem kenndi var að kynna Beijing óperuna. Þar kom í ljós að hreyfinga skipta mjög miklu máli. Konan söng fyrir nemendurna og í stuttu máli sagt var sá söngur talsvert öðruvísi en það sem við eigum að venjast. Oft hljómaði þetta ekki eins og lag heldur eins og runa af skrítnum hljóðum sem að miklu leiti komu út um nefið. En svo söng hún líka eins og óperusöngvarar sem við eigum að venjast. Það var gaman að sjá hversu ólíkt þetta í raun er. Vinstra megin við mig sat stelpa sem var svo laglaus að það var ekki fyndið en hægramegin við mig sat stelpa sem söng svona prýðis vel. Ég reyndi því að loka vinstra eyranu og hlusta bara með því hægra. Það er mjög athyglisvert að sjá hversu óhræddir krakkarnir eru að standa fyrir framan bekkinn og eins og í þessu tilfelli syngja fyrir hann. Eftir mjög athyglisverðan tónlistartíma var hægt að nota málsháttinn tvisvar er sá glaður sem á steininn sest. Svo fengum við tíma í kínversku. Það var mjög gaman þar lærðum við nokkra frasa sem eru mjög gagnlegir. Eftir að hafa sagt “ni hao” í svona klukkutíma var kominn hádegismatur. Kínverjar spara ekki matinn og klára eiginlega aldrei af diskinum. Eftir matinn fórum við inn í sal þar sem kínverskir nemendur fluttu fyrir okkur fyrirlestra um Kína, daglegt líf, ólympíuleikana, listir o.fl. Svo fluttu Ninna og Lalli fyrirlestur um Ísland og Hrafndís, Arna Lára og ég sungum Ísland farsælda Frón og Maístjörnuna í röddum. Reynir, Guðmundur og Gunnar, það er að segja allir strákarnir, fluttu svo smá pistil um skólann okkar og félagslífið. Við fengum svo að hitta þá manneskju sem við eigum að búa seinna hjá. Ég spjallaði aðeins við mína og finnst hún bara mjög fín. Krakkarnir hér eru mjög forvitnir og óhræddir við að spyrja. Við reynum eins og við gátum að spyrja þau til baka. Eftir skóla kom mamman og fór með okkur út að borða. Pabbinn kom svo stuttu seinna. Þar fengum við kjúkling í sætri sósu með hnetum og nautakjöt sem var með grænmeti og í sósu. Þetta setti maður svo inn í pastahulu sem ég hélt fyrst að væru servéttur. Ég fékk líka dumblings. Það er mjög gott. Þetta var mjög góður kvöldmatur og mjög gaman að smakka þessa hluti sem voru mér framandi. En það sem var áhugaverðast að smakka í þessari máltíð voru litlir kolkrabbar á grillpinna og í sterkri chili sósu. Þau höfðu mjög gaman af því að horfa á mig glíma við að borða með prjónunum og reyna að segja þessi fáu orð sem ég kunni á kínversku. Eftir matinn fór ég með þeim mæðgum í verslunarmiðstöð. Þar keypti ég prjóna og teefni. Mamman keypti svo þurrkaða ávexti handa mér og kínverskt snakk. Þegar við komum heim í íbúðina gaf hún mér líka heila dós af fínu tei. Ég var mjög ánægð með daginn en ofboðslega þreytt. Það var gott að fara í sturtu og svo að sofa.

Framhald í næsta þætti...

sunnudagur, 11. janúar 2009

Kína fína


Þó að þetta komi fáránlega seint ákvað ég nú samt að setja inn smá ferðasögu frá Kínaferðinni miklu ;-)


Klukkan 04:00 voru ágætis hópur af fólki mættur með það í huga að fara til Kína. Ég steig upp í rútuna og tyllti mér við hliðina á Hrafndísi og það leyndi sér ekki í augunum á henni, og reyndar ekki á neinum, að spenningurinn var að æra mannskapinn. Þegar allir, sem ætluðu með í ferðina, voru komnir í rútuna lá leiðin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Ninna kom á ákveðnu númerakerfi sem fólst í því að hver og einn hafði sitt númer. Ninna var númer eitt og um leið og hún sagði einn átti manneskja sem var númer tvö að segja tveir og svo koll af kolli. Ég hlaut númerið tólf. Á leiðinni til Keflavíkur sváfu flestir. Í Keflavík fengum við okkur morgunmat og hinn og þessi varningur var keyptur sem þótti nauðsynlegur til ferðarinnar. Loksins var komið að því að stíga upp í flugvélina. En áður var Lalli búinn að spyrja mig spjörunum úr. Um ættir og uppruna. Á Heathrow gerðum við ekki margt. Ráfuðum um eins og vofur, borðuðum, spiluðum, lásum og jafnvel sváfum. Þetta var níu klukkustunda bið. Klukkan 19:00 hittumst við til að labba út í flugvél. Þá kom þetta fína talnakerfi að góðu gagni til að athuga hvort það væru ekki örugglega allir komnir. Flugvélin var risastór. Ég hef aldrei á ævi minni séð jafnmikið flykki. Hún var á tveimur hæðum og sætin voru 3:4:3. Við vorum dreifð um alla vélina. Ekki leið á löngu áður en þreytan náði yfirráðum og ég sofnaði og svaf. Ég vaknaði þó reglulega til að standa upp og teygja úr mér, spjalla við fólkið, fá mér hressingu eða einfaldlega bara til að fara á salernið. Þetta ógurlega tíu tíma flug leið mun hraðar en ég hafði þorað að búast við. Stuttu fyrir lendingu þurftum við svo að fylla út blað um hvað við værum að fara að gera í Kína og hvers vegna. Það sem sumir kalla "terrorristablað". Á þessum tíma voru allir orðnir mjög lúnir, enda búnir að vera á ferðalagi í meira en einn sólarhring. Við fengum stimpil í vegabréfið okkar og vorum grandskoðuð til að ganga úr skugga um að við værum örugglega sama manneskjan og er í vegabréfinu. Mr. Cheng tók á móti okkur ásamt öðrum manni sem við kölluðum Charlie. Við okkur blasti mengunarmistrið. Það var alskýjað og hulan náði langt niður. Gestreisnin er alveg gífurleg. Um leið og þeir sáu okkur var okkur vel fagnað. Þeir tóku töskunnar fyrir Lalla og Ninnu og ef annar hvor þeirra gerði eitthvað smávægilegt sem hinum þótti ekki viðeigandi þá hundskömmuðu þeir hvorn annan. Á leiðinni frá flugvellinum og að skólanum steinsofnuðu allir. Ninna vakti okkur og bað okkur um að lýta hress út því að það væri búið að hafa svo mikið fyrir þessu og þetta væri bara almenn kurteisi. Búið var að hengja borða utan á skólann sem á stóð “Warmly welcome to our friends from Iceland”. Við settumst inn í fundarherbergi þar sem við fengum vatn og hittum skólastjórann. Hann talaði enga ensku þannig Mr. Cheng þýddi allt fyrir hann þegar hann var að segja okkur frá skólanum. Þeir voru allir ofboðslega kurteisir. Þeir löbbuðu svo um skólasvæðið með okkur. Þar var meðal annars að finna íþróttahöll, úti leikvang, tónlistarhöll, garð með trjám sem tákna nemendur og önnur sem tákna skólann, risastóran stein með áletruðu ljóði eftir frægt skáld. Einnig var á skólalóðinni safn um 50 ára sögu skólans. Þar var einn nemandi sem sýndi okkur það og gerði það mjög vel. Þetta er topp skóli sem hefur hlotið mörg verðlaun. Á þessu safni var meðal annars að finna fyrirferðamikla kynningu um Ísland. Þar fann ég mynd af sjálfri mér. Í þessari sýningarferð vorum við mynduð við hvert fótmál. Þá var komið að borðhaldi. Þar hittum við félagann okkar. Búið var að skreyta mötuneytið okkur til heiðurs. Krakkarnir sem tóku á móti okkur voru búin að skrifa nöfnin okkur á blöð svo að við gætum fundið þau. Stelpan sem ég lenti hjá heitir Vivian og er 15 ára. Pabbi hennar er lögga og mamma hennar er læknir. Pabbi hennar kom og sótti okkur. Ágætis fólk sem vildi allt fyrir mann gera. Við fengum ekta kínverskan mat í kvöldmat og ég smakkaði spes kínverskan ávöxt sem er kallaður “dragon fruit” hann er ílangur og rauður að utan. Að innan lítur hann út eins og hvítur kíví með svörtum steinum. Það var ekki mikið bragð af honum en gaman að smakka. Ég fékk líka appelsínu sem var á stærð við borðtenniskúlu. Ég fékk að fara í sturtu. Ég hef aldrei verið jafn fegin að komst í bað. Þegar hér er komið við sögu vorum við búin að vera á ferðinni í nærri því tvo sólahringa. Maður var búinn að vera að vanda sig að brosa og sýnast ekki þreytt. Það verður gott að leggjast niður og sofna :-)

Framhald í næsta bloggi...

mánudagur, 5. janúar 2009

Du ved...

du er blevet voksen når du går uden om vandpytterne selvom du har gummistøvler på.