Þó að þetta komi fáránlega seint ákvað ég nú samt að setja inn smá ferðasögu frá Kínaferðinni miklu ;-)
Klukkan 04:00 voru ágætis hópur af fólki mættur með það í huga að fara til Kína. Ég steig upp í rútuna og tyllti mér við hliðina á Hrafndísi og það leyndi sér ekki í augunum á henni, og reyndar ekki á neinum, að spenningurinn var að æra mannskapinn. Þegar allir, sem ætluðu með í ferðina, voru komnir í rútuna lá leiðin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Ninna kom á ákveðnu númerakerfi sem fólst í því að hver og einn hafði sitt númer. Ninna var númer eitt og um leið og hún sagði einn átti manneskja sem var númer tvö að segja tveir og svo koll af kolli. Ég hlaut númerið tólf. Á leiðinni til Keflavíkur sváfu flestir. Í Keflavík fengum við okkur morgunmat og hinn og þessi varningur var keyptur sem þótti nauðsynlegur til ferðarinnar. Loksins var komið að því að stíga upp í flugvélina. En áður var Lalli búinn að spyrja mig spjörunum úr. Um ættir og uppruna. Á Heathrow gerðum við ekki margt. Ráfuðum um eins og vofur, borðuðum, spiluðum, lásum og jafnvel sváfum. Þetta var níu klukkustunda bið. Klukkan 19:00 hittumst við til að labba út í flugvél. Þá kom þetta fína talnakerfi að góðu gagni til að athuga hvort það væru ekki örugglega allir komnir. Flugvélin var risastór. Ég hef aldrei á ævi minni séð jafnmikið flykki. Hún var á tveimur hæðum og sætin voru 3:4:3. Við vorum dreifð um alla vélina. Ekki leið á löngu áður en þreytan náði yfirráðum og ég sofnaði og svaf. Ég vaknaði þó reglulega til að standa upp og teygja úr mér, spjalla við fólkið, fá mér hressingu eða einfaldlega bara til að fara á salernið. Þetta ógurlega tíu tíma flug leið mun hraðar en ég hafði þorað að búast við. Stuttu fyrir lendingu þurftum við svo að fylla út blað um hvað við værum að fara að gera í Kína og hvers vegna. Það sem sumir kalla "terrorristablað". Á þessum tíma voru allir orðnir mjög lúnir, enda búnir að vera á ferðalagi í meira en einn sólarhring. Við fengum stimpil í vegabréfið okkar og vorum grandskoðuð til að ganga úr skugga um að við værum örugglega sama manneskjan og er í vegabréfinu. Mr. Cheng tók á móti okkur ásamt öðrum manni sem við kölluðum Charlie. Við okkur blasti mengunarmistrið. Það var alskýjað og hulan náði langt niður. Gestreisnin er alveg gífurleg. Um leið og þeir sáu okkur var okkur vel fagnað. Þeir tóku töskunnar fyrir Lalla og Ninnu og ef annar hvor þeirra gerði eitthvað smávægilegt sem hinum þótti ekki viðeigandi þá hundskömmuðu þeir hvorn annan. Á leiðinni frá flugvellinum og að skólanum steinsofnuðu allir. Ninna vakti okkur og bað okkur um að lýta hress út því að það væri búið að hafa svo mikið fyrir þessu og þetta væri bara almenn kurteisi. Búið var að hengja borða utan á skólann sem á stóð “Warmly welcome to our friends from Iceland”. Við settumst inn í fundarherbergi þar sem við fengum vatn og hittum skólastjórann. Hann talaði enga ensku þannig Mr. Cheng þýddi allt fyrir hann þegar hann var að segja okkur frá skólanum. Þeir voru allir ofboðslega kurteisir. Þeir löbbuðu svo um skólasvæðið með okkur. Þar var meðal annars að finna íþróttahöll, úti leikvang, tónlistarhöll, garð með trjám sem tákna nemendur og önnur sem tákna skólann, risastóran stein með áletruðu ljóði eftir frægt skáld. Einnig var á skólalóðinni safn um 50 ára sögu skólans. Þar var einn nemandi sem sýndi okkur það og gerði það mjög vel. Þetta er topp skóli sem hefur hlotið mörg verðlaun. Á þessu safni var meðal annars að finna fyrirferðamikla kynningu um Ísland. Þar fann ég mynd af sjálfri mér. Í þessari sýningarferð vorum við mynduð við hvert fótmál. Þá var komið að borðhaldi. Þar hittum við félagann okkar. Búið var að skreyta mötuneytið okkur til heiðurs. Krakkarnir sem tóku á móti okkur voru búin að skrifa nöfnin okkur á blöð svo að við gætum fundið þau. Stelpan sem ég lenti hjá heitir Vivian og er 15 ára. Pabbi hennar er lögga og mamma hennar er læknir. Pabbi hennar kom og sótti okkur. Ágætis fólk sem vildi allt fyrir mann gera. Við fengum ekta kínverskan mat í kvöldmat og ég smakkaði spes kínverskan ávöxt sem er kallaður “dragon fruit” hann er ílangur og rauður að utan. Að innan lítur hann út eins og hvítur kíví með svörtum steinum. Það var ekki mikið bragð af honum en gaman að smakka. Ég fékk líka appelsínu sem var á stærð við borðtenniskúlu. Ég fékk að fara í sturtu. Ég hef aldrei verið jafn fegin að komst í bað. Þegar hér er komið við sögu vorum við búin að vera á ferðinni í nærri því tvo sólahringa. Maður var búinn að vera að vanda sig að brosa og sýnast ekki þreytt. Það verður gott að leggjast niður og sofna :-)
Framhald í næsta bloggi...
|