fimmtudagur, 15. janúar 2009

Kína krína

Forboðna borgin

Hópurinn við "The birds nest"

....og allir Kínverjarnir sem tóku mynd af öllu hvíta fólkinu




Í dag var, eins og undanfarna daga sól en vindur. Í morgunmat fékk ég rúsínubrauð með skinku og eggi. Ég fór með leigubíl í skólann. Það kostaði 10 yuan eða um það bil 200 kall. Í skólanum beið okkar rúta. Þar voru tveir ensku kennarar ásamt A.J. Leið okkar lá að Torgi hins himneska friðar. En á því er meðal annars að finna gamla borgarhliðið, grafhýsi Maós og Forboðnu borgina. Þetta torg rúmar um milljón manns! Á torginu er risastór flaggstöng þar sem kínverski fáninn blaktir við hún. Á hverjum morgni er ákveðin athöfn þar sem fáninn er dreginn upp. Forboðna borgin er í hjarta Beijing og er líka oft kölluð fjólublá borgin. Ástæðan er sú að á nætur himninum eru þrjár stjörnur sem eru heilagar í augum Kínverja og sú sem er í miðjunni er fjólublá. Torgið var troðfullt af fólki og það var eins gott að týnast ekki. Þá kom pandan hans A.J. og talnakerfið að góðu gagni. Við fengum tíma til að labba um, skoða og taka myndir. Ég og Hrafndís vorum í okkar mesta sakleysi að labba um þegar allt í einu stoppuðu okkur nokkrir karlar sem vildu láta taka mynd af sér með okkur. Okkur fannst þetta mjög fyndið. Á Forboðnu borginni hangir 6 m há andlitsmynd af Maó sem er heil fjögur tonn. Ekkert smá flykki. Loks var komið að því að fara inn í Forboðnu borgina. Þvílík sjón. Það er hvergi plöntur að sjá því einn af keisurunum var svo hræddur um að einhver ætlaði að koma og drepa hann, þannig hann lét leggja mörg lög af hellum svo það gæti örugglega enginn grafið sig inn í borgina. Í Forboðnu borginni eru mörg hús: þar sem keisarinn bjó, þar sem haldnar voru veislur, þar sem mikilvægar ákvarðanir voru teknar og mörg, mörg fleiri. Við náðum bara að skoða brota brot af öllum þessum húsum. Þetta er stórmerkur staður þar sem mjög margt merkilegt hefur gerst. Á húsþökunum eru litlar styttur sem eiga að vernda húsin. Því fleiri sem stytturnar eru því merkilegra og mikilvægara er húsið. Í hádeginu borðuðum við á stað þar sem klósettvaskarnir líta út eins og rassar. A.J. datt í hug að fara með okkur í tesmökkun. Það var mjög skemmtilegt. Þar smökkuðum við hin ýmsu te úr mjög litlum tebollum. Okkur var sagt að þetta sé frægasta og besta tehúsið í Beijing. Ég keypti smá te þarna. Eftir þetta fórum við að Ólympíuleikvanginum. “The birds nest” það var ótrúlega skemmtilegt. Mér fannst þetta engin smá upplifun að standa inni á leikvanginum þar sem afreksmenn í sínum greinum hafa keppt. Eftir að ég hitti Mayi lá leið okkar að sölubás mömmu hennar. Hún bjó til armband handa mér úr jaðistein. Hann var mótaður eins og einn drekasonurinn. Í kvöldmat fengum við dumblings. Það er rosa gott. Nokkrir frændur og nágrannar komu í heimsókn. Þeir töluðu enga ensku en sögðust bara vilja horfa á mig í allt kvöld því að ég væri svo falleg. Löggurnar sögðust líka vona að ég yrði örugg hér í Kína. Mayi gaf mér svo kínverskt nafn. You Ha na. Maður segir það víst bara eins og Jóhanna en engu að síður mjög skemmtilegt.
Er að verða uppiskroppa með rímorð
og enn er þetta ekki búið