þriðjudagur, 13. janúar 2009

Kína líma

Frá vinstri er það Mayi, Vivian(Kínverjarnir mínir) og kínverjinn hennar Hrafndísar

Lambakjöt
"Hot pot"
Í dag var fínasta veður. Svolítið rok og sólskin. Í dag var íþróttahátíð skólans haldin. Þar var keppt í há- og langstökki en þó aðallega í hlaupi. Fyrst var löng opnunar skrúðganga. Þar voru fulltrúar bekkjanna sem sýndu listir sýnar. Skrúðgangan var mjög löng þar sem það eru meira en 60 bekkir. Á meðan á skrúðgöngunni stóð var stanslaust talað í hljóðnema og auðvitað skildum við ekki orð nema þegar var verið að kynna okkur og þeir sögðu “Bingdao”. Ég settist fyrst hjá Vivian og hennar vinkonum. Það var margt fólk og svolítið kalt. Krakkarnir sátu á dagblöðum til að verða ekki skítugir af áhorfendastúkunni. Vivian gerði allt fyrir mig. Ein vinkona hennar gaf mér eitthvað gult í dollu sem reyndist svo vera ananas hlaup. Mjög sérstakt. Svo byrjaði keppnin. Kínverjar eru afbragðs góðir hlauparar. Ég sá voðalega illa hvernig þeim gekk í langstökkinu en kunnátta þeirra í hástökki var takmörkuð. Hæðirnar voru lágar og þau söxuðu öll. En kannski er það bara sú tækni sem tíðkast hér. Í öllu kraðakinu týndi ég Vivian en fann Hrafndísi, Reyni, Söndru, Hjördísi og Örnu Láru. Þar sátum við með Kínverjanum hennar Hrafndísar. Kínverjinn hennar Hrafndísar sagði okkur að skrifa kveðju á blað á ensku sem myndi vera lesinn upp í kallkerfinu. Við gerðum það og Ninna var mjög ánægð með okkur. Eins og áður var manni heilsað og ég skrifaði nafnið mitt örugglega hundrað sinnum. Þau reyndu svo öll að kenna mér að segja nafnið sitt. En þau fóru oftast bara að hlægja að mér. Í hádeginu fengum við góðan mat eins og vanalega. Eftir hádegi fórum við með rútu inn til Peking til að hitta íslenska sendiherrann. Hann heitir Gunnar Snorri. Við hittum líka aðstoðar mann hans sem heitir Axel. Þeir gáfu okkur kínverskt/íslenskt fánabarmmerki. Það var mjög gaman að heyra þá tala um hvernig það væri fyrir Íslending að búa í Kína. Þeir kenndu okkur svo líka að prútta. Það er nú meiri leikþátturinn. Þeir sýndu okkur svo húsakynni sendiráðsins. Í Beijing eru mjög mörg stór og sérkennileg hús. Þau eru í allskonar litum og með skemmtilegar tengibyggingar á milli húsa. Þegar við komum til baka hitti ég Vivian. Hún labbaði með mig um stræti Daxing. Það var mjög merkilegt. Fullt af fólki og bílum og engar umferðareglur. Ógrynni af hjólum og oft fleiri en einn á hverju hjóli. Vivian og mamma hennar fóru með mig að borða “Hot pot” það er einfaldlega pottur á miðju borðinu með sjóðandi vatni. Ofan í hann setti maður svo bæði kjöt og grænmeti. Í einni skálinni var eitthvað rautt og hlaupkennt. Þetta reyndist vera andarblóð. Það var tekið upp með skeið og set út í sjóðandi vatnið. Það var sama sem ekkert bragð af því. En gaman að prófa. Með þessu fékk maður gums í skál. Þetta voru sesamfræ ásamt kryddi. Þetta var rosalega gott á bragðið. Ofan í þetta dýfði maður öllu sem kom upp úr pottinum. Mamman var búin að borða, þannig það var bara ég og Vivian sem borðuðum. Mamman gerði því lítið annað en að moka mat á diskinn hjá mér. Ég hafði varla undan. Pabbinn var að borða með vinum sínum annars staða í húsinu. Þær fóru með mig þangað að heilsa upp á þá. Veitingastaðirnir hér eru oft einn salur með fullt af borðum og svo eru mörg minni herbergi þar sem fólk getur fengið að vera í friði. Við fórum af veitingastaðnum og heim þar sem ég pakkaði í töskuna mína. Á morgun fer ég nefnilega til hinnar stelpunnar.

Og það kemur meira...