laugardagur, 26. september 2009

Viðburðarríkur föstudagur

Í gær var haldið grill í eðlisfræðideildinni. Nemendur á öðru ári í framhaldsdeild sáu um grillið, þar á meðal Jón Emil. Þetta var mjög skemmtilegt, frábært veður og gaman njóta góða veðursins meðal skemmtilegs fólks. Að grillinu loknu fórum við að taka til, sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir eitt smá atriði. Ég stóð við hlaðborðið, þar sem í boði hafði verið grænmeti og alls konar sósur. Ég var að tína saman notaðar servíettur og henda dóti í ruslapoka, allt í einu heyri ég aftan frá mér sagt: "ooo ó!" og það næsta sem ég veit er að amerískur fótbolti lendir beint ofan á sósufatinu og eys sósum af öllum gerðum yfir mig alla! Ég var bókstaflega útötuð! Hár, andlit, föt... ekkert slapp. Strákarnir sem voru að leika sér með boltann voru dálítið skömmustulegir, held samt að þeir hafi ekki lært mikið á þessu ;-)


Eftir að hafa farið í sturtu og skolað af mér sósurnar fórum við Jón Emil á skauta með David og Allison. Það var ekkert smá gaman. Það er rosalega langt síðan ég hef farið á skauta og fyrst var ég mjög völt. (Mér liggur við að segja eins og belja á svelli) En mér jókst kjarkur eftir því sem leið á og skemmti mér konunglega. Vonandi gefum við okkur tíma til að fara aftur á skauta fljótlega.