fimmtudagur, 24. september 2009

Fyrirlestrar

Ég er búin að skoða kúrsaúrvalið við byggingarverkfræðideildina hér í Princeton. Langaði til þess að gá hvort ég gæti ekki smyglað mér inn í einhvern fyrirlestur, lært eitthvað skemmtilegt og nýtt eða rifjað upp eitthvað gamalt og gott.


Á mánudaginn mætti ég í tíma sem kallaður er Random vibrations. Kúrs sem fjallar um jarðskjálfta, vindálag, sjó og öldur. Mér þótti það spennandi og afréð því að mæta. Þegar ég mæti á staðinn er aðeins einn nemandi mættur, það reyndist síðan vera eini nemandinn sem skráður var í kúrsinn. Kennarinn var mjög þægilegur eldri maður. Því miður verður kúrsinn ekki kenndur vegna lítillar skráningar, það hefði verið gaman að hlusta á þennan mann.

Í gær fór ég svo í tíma í greiningu burðarvirkja. Þar hitti ég aftur vin minn frá því á mánudaginn. Þetta var mjög skemmtilegur tími. Frábær kennari í alla staði, ég ætla að fara aftur í tíma til hans á morgun.

Í dag kynntist ég gömlum manni. Við vorum bæði að bíða eftir strætó þegar hann gaf sig á tal við mig. Hann var mjög viðkunnanlegur. Sagðist vera nýkominn af fyrirlestri hjá eldriborgarafélaginu. Princeton háskóli heldur úti fyrirlestraröð, þ.e. einn fyrirlestur í viku allt skólaárið fyrir eldriborgara. Mér finnst það mjög góð hugmynd. Við spjölluðum heilmikið saman, fyrst á strætóstöðinni og síðan í strætó. Það er alltaf gaman að kynnast vinalegu fólki.