Í morgun vorum við Dóra einar í mjöltum. Það kom í minn hlut að reka inn og Dóra benti mér á það að best væri að skafa út því básinn var orðinn fullur af fíbjakki. Ég fer upp að aftan labba í gegnum básinn tek mér sköfu í hönd og skef skítinn niður í haughús þar sem hann fær að dúsa fram á næsta vor. Þá fór ég að reka inn og ég áleit það best að setja hana Brekku gömlu fremsta. Hún labbar þunglamalegum skrefum fremst í básinn. Svo fylli ég básinn af kusupakki. Þegar vélarnar eru komnar á allar kýrnar spyr ég Dóru hvort hún viti hvað klukkan sé. Dóra hristir hausinn en heldur af stað upp úr básnum að framanverðu til að fara fram í mjólkurhús til að athuga hvað tímanum líði. En þegar hún var komin í efstu tröppu stoppar hún, hugsar sig um og segir svo "hér er opið!" Ég hafði gleymt að loka að framanverðu þegar ég var að skafa út. En Brekka stóð sem klettur með allt hafurtaskið fyrir aftan sig með taktföstum mjaltarvélunum á. Dóra lokaði og svo sprungum við úr hlátri.
mánudagur, 15. júní 2009
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|