Í gær var þakkargjörðarhátíðin hér vestan hafs. Okkur Jóni Emil var boðið til veislu hjá nokkrum félögum sem leigja saman húsnæði. Þegar við komum um þrjúleytið ilmaði húsið af alls konar góðgæti. 10 kg kalkúnn var kominn í ofninn og allt á fullu í eldhúsinu. Okkur var boðið til stofu ásamt fleiri gestum og þar spjölluðum við og horfðum á amerískan fótbolta. Ég lærði meira segja grunnreglurnar í þeirri flóknu íþrótt... veit samt ekki hvort að ég man þær í dag :-) Mjög skrítin íþrótt... "Hey! Þarna er gaurinn með boltann, hlaupum á hann!!" virðist vera aðalmálið!
Um sjöleytið var maturinn settur á borðið. Hann var virkilega ljúffengur, alls konar meðlæti, meðal annars tvenns konar kartöflumús (annars vegar "venjulegar" kartöflur og hins vegar sætar), sósa og sulta og svo auðvitað kalkúnninn. Við borðuðum öll yfir okkur, ultum upp í sófa og horfðum á meiri fótbolta. Svo fórum við heim að sofa...
... en klukkan hálf fjögur hringdi vekjaraklukkan, og já, það var viljandi! Í dag er nefnilega það sem Kaninn kallar "Black friday". Þá opna flestar verslanir mjög snemma og það eru miklar útsölur. Þetta er eiginlega byrjunin á jólainnkaupum heimamanna. Við urðum auðvitað að upplifa þetta fyrirbæri og því fórum við Geir, Valla og Jón Emil á útsölur klukkan fjögur í morgun! Mjög steikt. Klukkan fimm leit verslunarmiðstöðin sem við heimsóttum út eins og Kringlan klukkan 3 um eftirmiðdaginn rétt fyrir jól. Fólk út um allt og allir að næla sér í góð tilboð. Við fundum t.d. fína skó á mig, kodda, gallabuxur á Jón Emil og fleira og fleira...
Um áttaleytið vorum við komin heim aftur og þá lögðum við okkur! Núna sit ég uppi í skóla og er að reyna að vinna verkefni, dagurinn er samt búinn að vera svo skrítinn að ég veit varla hvort ég er að koma eða fara. Ég sé samt ekki eftir þessu, það er gaman að skoða skrítna siði og hefðir.
Hlakka til að koma heim á þriðjudaginn.
föstudagur, 27. nóvember 2009
Thanksgiving og black friday
Ritaði Dórótea Høeg klukkan 11:04 e.h.
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|