þriðjudagur, 21. apríl 2009

stóru skrefin

Fyrir utan gluggann minn er rist í gangstéttinni. Ristin er gömul og ryðguð. Sums staðar vantar í hana, þar eru stórar rifur.


Ég hef komist að því að börnum þykir afskaplega gaman að hlaupa eftir þessari rist með tilheyrandi látum.

En í dag voru engin læti. Ég varð vitni að því þegar ung snót sem var greinilega nýfarin að stíga sín fyrstu skref spreytti sig á ristinni. Hún fór sér hægt, vandaði hvert skref. Svo kom hún að stórri rifu, þar sem vantaði í ristina. Hún staðnæmdist og undirbjó sig vel, þetta var stórt skref. Svo tók hún skrefið, annar fóturinn á undan hinum og hinn fylgdi í kjölfarið.

Yfir sig stolt hljóp hún eftir hellulagðri stéttinni til mömmu sinnar. Hún hafði tekið stórt skref í lífi sínu. 

Þessi litla stúlka sem gekk eftir Vesturvallagötunni með foreldrum sínum í dag vakti mig til umhugsunar um að frá því að maður fæðist er maður að taka stór skref, skref sem krefjast kjarks og þors, staðfestu og dugnaðar.