sunnudagur, 14. október 2007

Rafmagnslaust

Áðan fannst mér eins og einhver hefði kippt mér áratug aftur í tímann. Við mæðgur sátum og horfðum á danska þáttaröð í sjónvarpinu þegar rafmagnið fór. Þetta gerðist oft á veturna þegar ég var minni en ég er núna. Þá varð ég hrædd fyrst, hrædd við myrkrið. Síðan fann mamma oftast vasaljósið og kveikti á mörgum kertum, afi kom upp stigann með kerti í hendinni og þá var bara notalegt að sitja við ljósin og spjalla saman.

Það er alveg sérstök tilfinning sem fylgir rafmagnsleysi, það verður eins og gefur að skilja alveg dimmt, hvergi er birtugjafi, ekki einu sinni úti. Rafmagnsleysinu fylgir líka kyrrð, það fer engill um húsið og það er eins og allir verði rólegri og meira afslappaðir.

Nú til dags stoppar rafmagnsleysið reyndar bara stutt við. Ég var hálfnuð út ganginn að sækja vasaljósið þegar rafmagnið kom á ný og við lukum við að horfa á þáttinn.

Engu að síður var gaman að verða 10 ára aftur...