laugardagur, 13. október 2007

Saga af úri

Einu sinni var maður, hann hét Sigurður, var bóndi og bjó á Hæli. Hann átti eitt sinn armbandsúr sem hann gekk með hvunndags. Eitt sinn gerðist það að hann týndi úrinu og skyldi hann ekki hverju það sætti. Hann kippti sér þó ekki mikið upp við það heldur fjárfesti í nýju úri um leið og efni stóðu til. Mörgum árum síðar, nánar tiltekið í síðustu viku, var Sigurður að slétta og moka skít ofan af planinu fyrir utan fjárhúsið. Hann notaði til þess forláta dráttarvél með stórum ámoksturstækjum sem hann hafði nýlega keypt. Þegar hann var orðinn sáttur með verkið stökk hann út úr Jóni Dýra. Hann stóð smá stund og virti fyrir sér verkið, hann var sáttur og ánægður. En þar sem hann stóð á miðju planinu tók hann eftir úrskífu við fætur sér. Þar var þá úrið fundið. Hefði hann farið millimeter neðar með dráttarvélarskóflunni, þá hefði hann eyðilagt úrið, eða mokað því upp á kerru.

Köttur úti' í mýri, setti' upp á sér stýri, úti' er ævintýri...