Í gær sat ég við kertaljós og las mér til um rafmagnsljós. Ég var að lesa um meðal annars merka spaða eins og Edison og Tesla. Mér þótti það hálf kaldhæðnislegt að sitja í rafmagnslausu húsi án ljóss og hita og fræðast um þetta merka fyrirbæri. En svona er þetta stundum. Nú er rafmagnið komið aftur, hiti að færast í íbúðina þó ég sé ennþá í góðu ullarsokkunum, ullarpilsinu og ullarpeysunni ;)
Mér þótti merkilegt að sjá alla eyðilegginguna sem veðrið sem fór hér yfir í fyrrinótt olli, rafmagnslínur liggja sem hráviði út um allt (Kaninn setur ekki rafmagnið í jörð). Fallin tré dingla í hálfföllnum köplum, niðurföll yfirfull, umferðarteppur og lokaðar götur. Það sem mér þótti samt merkilegast er að veðrið var ekkert svo brjálað, það var jú hressilegt rok og mikil rigning en samt hefði ég haldið að það þyrfti meira til að valda svona mikilli eyðileggingu.
Ég er alla vega sátt að vera aftur komin með rafmagn, get hitað mér te og skrifað þessa færslu.
Lifið heil.
mánudagur, 15. mars 2010
Rafmagn
Ritaði Dórótea Høeg klukkan 1:22 f.h.
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|