Nú er sólin sest bakvið Háholtsfjall og hún litar himininn alveg appelsínugulan. Ég sit niðri í borðstofu við kertaljós. (engin loftljós hér og erfiðara að reikna í myrkri) Veðrið er búið að vera yndislegt í dag, héðan úr stofunni sé ég líka trén í garðinum sem eru bæði græn, gul og rauð. Ég talaði við Helgu í síma í dag. Hún var hress og kát, sagðist hafa farið í partý í gær þar sem flutt voru tónverk á bjórflöskur. Hún sagðist hafa verið hljómfögur þríund.
Í gær tókum við slátur. Mamma fól upp á meðan við pabbi saumuðum fyrir, það gekk mjög vel og við pabbi fórum í keppni um hvort gæti saumað hraðar. Ég ábyrgist að það kom þó ekki niður á saumaskapnum... Ég hitti líka Sigurð Inga dýralækni í gær. Alltaf gaman að spjalla við hann. Við komumst að þeirri niðurstöðu að líklega væri frostmark kindablóðs ekki svo frábrugðið frostmarki kúamjólkur. Svona til fróðleiks þá frýs mjólk við u.þ.b. -0,5 gráður á celsius skala.
laugardagur, 6. október 2007
Mikið er alltaf gott að vera heima.
Ritaði Dórótea Høeg klukkan 7:29 e.h.
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|