miðvikudagur, 22. ágúst 2007

Að vera eða ekki vera... menningalegur:)

Allt er þá þrennt er...

Jæja... þriðja tilraun til að byrja blogg um menninganótt... Verð víst að taka áskorun frá Stebbu eins og maður (homo sapiens) og blogga aðeins um menninguna sem ég tók þátt í! Í tilefni þess ákvað ég að setja niður nokkra punkta:)

nr.1

Get nú ekki sagt að ég hafi verið mjög menningaleg framan af deginum... Var bara heima upp í sveit, spilaði svo reyndar við brúðkaup í Stóru-Núpskirkju seinni partinn við voða fína athöfn... má kannski segja að það hafi verið nokkuð menningalegt:)

nr. 2

Svo var brunað beinustu leið í bæinn. Þar hittumst við Stebba, Dóra og Guðrún Nína og snæddum kvöldverð heima hjá þeirri síðast nefndri og vorum heldur betur menningalegar:) Þar var drukkið rauðvín og borðaðir ostar að frönskum sið... og það er sko ekkert leyndarmál að þrátt fyrir að mikið hafi verið spjallað (jamms heil flóðbylgja af orðum allt kvöldið) var ekki talað eitt stakt orð á íslensku... allt fór fram á frönsku (trúi þeir sem trúa vilja...)

nr. 3

Fannst ég verða að taka alveg heilan punkt í það hjá mér að segja frá því þegar við gerðum okkur tilbúnar í að fara niður í bæ og horfa á flugeldasýninguna... ber þar hæst að nefna þegar Guðrún Nína var að mála Dóru, ég hélt símanum sem hún var að tala við Árna í og um leið var hún að drekka úr rauðvínsglasi.... Guðrúnu er sko margt til lista lagt... og þess ber að geta að Dóra varð rosa sæt og fín:)

nr. 4

Jæja, þá var labbað niður í bæ. Leiðin var sem hér segir: Hátún, 10-11 Borgartúni, 11-11 Sæbraut og loks sólfarið! Skemmtilegur labb rúntur:) En við sólfarið vorum við á besta stað í bænum og sáum þessa líka glæsilegu flugeldasýningu best af öllum... ætla ekki að fara að hafa of mörg orð um hana hér, því þeir sem ekki voru á staðnum sáu líklega myndir í sjónvarpinu eða þá að þeir hafa bara ekki áhuga á flugeldasýningum (eins og amma til dæmis) en nóg um það...

nr.5

Seinni hluti kvöldsins fór svo bara í djamm... ofsalega menningalegt djamm. Við skiptum liði, Dóra fór með Jóni Emil og Höskuldi vini hans en við hinar þrjár örkuðum upp laugarveginn-þó eftir stutt stopp á Arnarhóli og spjall við heilt fótboltalið. Ætla ekkert að fara of djúpt í það hér hvernig við stöllurnar dönsuðum og skemmtum okkur, týndum stebbu, fundum hana aftur á leiðinni heim, ég drakk kókið hans Árna.... og fleira og fleira.... ef ykkur langar að vita meira, þá hefðuð þið bara átt að vera á staðnum, nú er það of seint (nu er det for sent) so sorry:)


Segjum þetta gott af menningu... (og ómenningu, mér finnst alla vega ekki mjög menningalegt útlit á miðbænum eftir svona eitt kvöld)

Heyrumst síðar,
kv. Helga

p.s. Kristín frænka var bara í útlöndum
p.p.s. Stebba ég skora á þig á móti að fara að blogga stelpa!!! þú kannski hefur eina færslu um menninganótt;)