mánudagur, 28. september 2009

Rigning

Í Ameríku er hægt að hafa gluggana opna upp á gátt þó að það sé hellirigning. Þá getur maður setið fyrir innan og hlustað.

laugardagur, 26. september 2009

Viðburðarríkur föstudagur

Í gær var haldið grill í eðlisfræðideildinni. Nemendur á öðru ári í framhaldsdeild sáu um grillið, þar á meðal Jón Emil. Þetta var mjög skemmtilegt, frábært veður og gaman njóta góða veðursins meðal skemmtilegs fólks. Að grillinu loknu fórum við að taka til, sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir eitt smá atriði. Ég stóð við hlaðborðið, þar sem í boði hafði verið grænmeti og alls konar sósur. Ég var að tína saman notaðar servíettur og henda dóti í ruslapoka, allt í einu heyri ég aftan frá mér sagt: "ooo ó!" og það næsta sem ég veit er að amerískur fótbolti lendir beint ofan á sósufatinu og eys sósum af öllum gerðum yfir mig alla! Ég var bókstaflega útötuð! Hár, andlit, föt... ekkert slapp. Strákarnir sem voru að leika sér með boltann voru dálítið skömmustulegir, held samt að þeir hafi ekki lært mikið á þessu ;-)


Eftir að hafa farið í sturtu og skolað af mér sósurnar fórum við Jón Emil á skauta með David og Allison. Það var ekkert smá gaman. Það er rosalega langt síðan ég hef farið á skauta og fyrst var ég mjög völt. (Mér liggur við að segja eins og belja á svelli) En mér jókst kjarkur eftir því sem leið á og skemmti mér konunglega. Vonandi gefum við okkur tíma til að fara aftur á skauta fljótlega.

fimmtudagur, 24. september 2009

Fyrirlestrar

Ég er búin að skoða kúrsaúrvalið við byggingarverkfræðideildina hér í Princeton. Langaði til þess að gá hvort ég gæti ekki smyglað mér inn í einhvern fyrirlestur, lært eitthvað skemmtilegt og nýtt eða rifjað upp eitthvað gamalt og gott.


Á mánudaginn mætti ég í tíma sem kallaður er Random vibrations. Kúrs sem fjallar um jarðskjálfta, vindálag, sjó og öldur. Mér þótti það spennandi og afréð því að mæta. Þegar ég mæti á staðinn er aðeins einn nemandi mættur, það reyndist síðan vera eini nemandinn sem skráður var í kúrsinn. Kennarinn var mjög þægilegur eldri maður. Því miður verður kúrsinn ekki kenndur vegna lítillar skráningar, það hefði verið gaman að hlusta á þennan mann.

Í gær fór ég svo í tíma í greiningu burðarvirkja. Þar hitti ég aftur vin minn frá því á mánudaginn. Þetta var mjög skemmtilegur tími. Frábær kennari í alla staði, ég ætla að fara aftur í tíma til hans á morgun.

Í dag kynntist ég gömlum manni. Við vorum bæði að bíða eftir strætó þegar hann gaf sig á tal við mig. Hann var mjög viðkunnanlegur. Sagðist vera nýkominn af fyrirlestri hjá eldriborgarafélaginu. Princeton háskóli heldur úti fyrirlestraröð, þ.e. einn fyrirlestur í viku allt skólaárið fyrir eldriborgara. Mér finnst það mjög góð hugmynd. Við spjölluðum heilmikið saman, fyrst á strætóstöðinni og síðan í strætó. Það er alltaf gaman að kynnast vinalegu fólki.

þriðjudagur, 22. september 2009

Fylltist eldmóði í dag!

Kom heim og nennti gjörsamlega engu. Áður en ég vissi af var ég búin að umturna herberginu og ekkert húsgagn er nú nákvæmlega þar sem það var áður... en núna er bókmenntaritgerð málið!!!

Dóttir gæfunnar hér kem ég....hehe

bonne nuit

föstudagur, 18. september 2009

Komin til Ameríku

Nú er ég búin að sofa tvær nætur hér í Princeton. Ferðin hingað gekk vonum framar. Við hliðina á mér í flugvélinni sat færeysk fjölskylda. Pabbinn var duglegur að hafa ofan af fyrir yngsta syni sínum og söng fyrir hann færeyskar rímur aftur og aftur. Mjög fróðleg landkynning það!


Í dag fór ég í göngutúr út í banka og stofnaði bankareikning. Veðrið er alveg yndislegt, sólin skín og ég labba bara um á peysunni. Það er ágætis framlenging á íslenska sumrinu.

Ég læt þetta duga í bili, lifið heil.

imgres.jpg

mánudagur, 14. september 2009

kominn tími á færslu??

Þá er velheppnaður afmælisdagur ömmu að kveldi komin. Við eigum þó eftir að fá okkur sushi og hugga okkur svolítið yfir því:) Ætli við reynum svo ekki að setja geisladisk í nýja geislaspilarann! Prófa græjuna:)



Var rosa dugleg í morgun, komin á fætur fyrir allar aldir, illa sofin... :s en ég útbjó dýrindis morgunverð og skreytti hátt og lágt með fánum og pökkum:)



Langur dagur í skólanum... Efnafræðitilraun sem hefði ekki getað tekist verr. Grrr. Þá er nú ekki margt betra en að koma heim og fá rjómatertu og heitt súkkulaði hjá ömmu:)



Kveðja að austan.

fimmtudagur, 10. september 2009

já, það rignir

Mér finnst öll veður góð ef það er ekki rok.

Á morgun er því miður spáð roki.

mánudagur, 7. september 2009

PASS!!!

Þegar aðeins fjórir spila pass, og einn spyr við hvern hann á að skiptast á spilum við, fer ekki á milli mála að hinir tveir eiga að skiptast á spilum...