mánudagur, 12. janúar 2009

Kína lína







Ég get ekki lýst því hvað ég var fegin að leggjast upp í rúm í gærkvöldi. Tilfinningin var æðisleg. Ég var mjög fegin að sjá að það var heiðskýrt. Í gær var svo mikil mengunarmolla að það fannst bæði í hálsi og auguum. Í dag var hins vega vindur, þannig veðrið var þægilegt. Vivian vakti mig um hálf sjö. Í morgunmat var spælt egg og grjón. Það er að segja hálfgerður hádegismatur. Mamma hennar keyrði okkur svo í skólann. Ég fór í fyrsta tíma með henni og það var mjög athyglisvert. Ég var ekki viss í hvaða tíma þau voru en mér fannst magnað að sjá að þau voru um 50 í pínulítilli stofu, án kennara á fullu að læra. Það heyrðist ekki múkk. Ég segi nú ekki að þau hafi ekki aðeins talað saman og hlegið en aginn var samt ótrúlegur. Eftir smá stund kom inn lítil gráhærð fýld kona. Hún sagði eitthvað við krakkana sem fékk þau öll til að horfa á mig. Vivian kynnti mig svo og sagði mér svo að standa upp og segja aðeins frá sjálfri mér. Þótt að helmingurinn af þeim skildi örugglega ekkert hvað ég var að segja leyndi áhuginn sér ekki. Það er víst búið að kenna öllum skólanum að segja halló. Þannig þegar við göngum um gangana eru krakkarnir að mana hvert annað að segja það við okkur. Ég brosi alltaf framan í þau og segi halló á móti og þá fær maður stærsta bros í heimi á móti sér, en svo fara þau oft hjá sér. Manni lýður bara eins og stjörnu hérna. Eftir að hafa setið í smá stund uppi í kennslustofunni byrjaði þvílík tónlist. Allir krakkarnir söfnuðust saman í reglulegum hópum á grasvellinum til að gera morgunleikfimi. Á auga bragði voru þau búin að dreifa sér jafnt um allt svæðið. Svo gerður 3300 nemendur morgunleikfimi við tónlist og öll í takt. Mjög magnað. Mr. Lee eða Charlie fór svo með okkur í enskutíma. Þar sátum við á milli nemenda og áttum að taka fullan þátt í tímanum. Kennsluaðferðin hér byggist aðallega á því að kennarinn segir eitthvað og nemendurnir endurtaka það. Í tímanum voru fullt af forvitnum krökkum sem gátu ekki beðið eftir að spyrja okkur spurninga. Stundum voru þau í vandræðum og þá hjálpuðust þau að. Eftir að hafa kvatt káta nemendur í enskutíma fórum við í söngtíma. Þar sátu krakkarnir á kössum í tröppugangi. Konan sem kenndi var að kynna Beijing óperuna. Þar kom í ljós að hreyfinga skipta mjög miklu máli. Konan söng fyrir nemendurna og í stuttu máli sagt var sá söngur talsvert öðruvísi en það sem við eigum að venjast. Oft hljómaði þetta ekki eins og lag heldur eins og runa af skrítnum hljóðum sem að miklu leiti komu út um nefið. En svo söng hún líka eins og óperusöngvarar sem við eigum að venjast. Það var gaman að sjá hversu ólíkt þetta í raun er. Vinstra megin við mig sat stelpa sem var svo laglaus að það var ekki fyndið en hægramegin við mig sat stelpa sem söng svona prýðis vel. Ég reyndi því að loka vinstra eyranu og hlusta bara með því hægra. Það er mjög athyglisvert að sjá hversu óhræddir krakkarnir eru að standa fyrir framan bekkinn og eins og í þessu tilfelli syngja fyrir hann. Eftir mjög athyglisverðan tónlistartíma var hægt að nota málsháttinn tvisvar er sá glaður sem á steininn sest. Svo fengum við tíma í kínversku. Það var mjög gaman þar lærðum við nokkra frasa sem eru mjög gagnlegir. Eftir að hafa sagt “ni hao” í svona klukkutíma var kominn hádegismatur. Kínverjar spara ekki matinn og klára eiginlega aldrei af diskinum. Eftir matinn fórum við inn í sal þar sem kínverskir nemendur fluttu fyrir okkur fyrirlestra um Kína, daglegt líf, ólympíuleikana, listir o.fl. Svo fluttu Ninna og Lalli fyrirlestur um Ísland og Hrafndís, Arna Lára og ég sungum Ísland farsælda Frón og Maístjörnuna í röddum. Reynir, Guðmundur og Gunnar, það er að segja allir strákarnir, fluttu svo smá pistil um skólann okkar og félagslífið. Við fengum svo að hitta þá manneskju sem við eigum að búa seinna hjá. Ég spjallaði aðeins við mína og finnst hún bara mjög fín. Krakkarnir hér eru mjög forvitnir og óhræddir við að spyrja. Við reynum eins og við gátum að spyrja þau til baka. Eftir skóla kom mamman og fór með okkur út að borða. Pabbinn kom svo stuttu seinna. Þar fengum við kjúkling í sætri sósu með hnetum og nautakjöt sem var með grænmeti og í sósu. Þetta setti maður svo inn í pastahulu sem ég hélt fyrst að væru servéttur. Ég fékk líka dumblings. Það er mjög gott. Þetta var mjög góður kvöldmatur og mjög gaman að smakka þessa hluti sem voru mér framandi. En það sem var áhugaverðast að smakka í þessari máltíð voru litlir kolkrabbar á grillpinna og í sterkri chili sósu. Þau höfðu mjög gaman af því að horfa á mig glíma við að borða með prjónunum og reyna að segja þessi fáu orð sem ég kunni á kínversku. Eftir matinn fór ég með þeim mæðgum í verslunarmiðstöð. Þar keypti ég prjóna og teefni. Mamman keypti svo þurrkaða ávexti handa mér og kínverskt snakk. Þegar við komum heim í íbúðina gaf hún mér líka heila dós af fínu tei. Ég var mjög ánægð með daginn en ofboðslega þreytt. Það var gott að fara í sturtu og svo að sofa.

Framhald í næsta þætti...